þriðjudagur, janúar 31, 2006

Hér í Indó gengur allt svona líka glimmrandi vel....... Átti að fljúga í dag en af tæknilegum ástæðum verður það ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir tvo daga eða þar um bil. Vekur það ekki mikla lukku þar sem ég yfirgaf ljúfa lífið í Jakarta fyrir tveim dögum til að standa þarflaust stanby og fljúga svo daginn eftir. Hvað um það. Þegar staðan er svona og maður byrjar að spennast allur upp þá er kjörið að skella sér í nudd einusinni sem oftar. Í dag og í gær hef ég farið þrisvar í nudd. Það er erfitt að neita sér um það þegar nuddtíminn kostar minna en dós af orabaunum í Nóatúni Rofabæ. Gærdagurinn hófst með höfuð og herðanuddi með dassi af handanuddi. Eftir stuttan göngutúr um fjarska fallega miðborg Banjarmasin rákumst við á fótanuddstofu. Við sviftum okkur þar inn og fengum snarlega ágætis fótanudd og þrif. Í dag var svo rölt um markaðinn hér í Banjar (myndir koma þegar ég kemst í almennilega tengingu) og var því fylgt eftir með full body massage.
Enn er ekkert frekar að frétta af heimkomu nánar en einhverntíman uppúr miðjum mánuði. Hefur mér borist til eyrna að sérlega gott kaffi fáist nú á heimilinu þökk sé leigutaka. Er það vel og verður boðið grimmt í kaffi þegar ég kem heim... með auðfúsu leyfi leigutaka að sjálfsögðu.


Nú eru hjónin Lalli og Helga Dröfn búin að versla sér íbúð í Breiðholtinu. Þau eru semsagt að verða Breiðhyltingar! Góðu fréttirnar eru að þau munu innan skamms fjárfesta í litlu VW Rúgbrauði og ráða til sín bílstjóra sem mun sjá um komplimentary sætaferðir uppí Breiðholt til að fólk komist í heimsókn. Hef ég heyrt að þetta sé mjög barnvænt umhverfi..... sem er gott.
Innilega til hamingju með íbúðina, hlakka til að gista hjá ykkur

kv

laugardagur, janúar 28, 2006

Það eru margar pælingar sem fara í gegnum kollinn á mannig þegar maður er í útlöndum. Sú nýjasta er að mála stofuna á N81 þegar ég kem heim. Mér þykir reyndar fátt leiðinlegar en að mála en hvað leggur maður ekki á sig fyrir sjálfan sig? Það er reyndar spurning um að bíða eftir að HD mæti aftur á klakann því ég veit það fyrir víst að henni þykir fátt skemmtilegra en að mála. Í staðin get ég bakað fyrir hana pönnukökur og lagað kaffi......... í kaffivél leigutaka míns.

kveðja

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Nú ætla ég að játa nördisma minn með því að auglýsa eftirfarandi síðu. Ég vil þó taka það fram að nördismi þessi getur komið sér vel fyrir menn í rómantískum hugleiðingum því hvað er rómantískara en að liggja með sinni uppáhalds einhverstaðar í skítakulda uppá miðri heiði, bæði klædd í Kraft-galla og horfa á norðurljósin?

http://www.sec.noaa.gov/aviation/

Muna svo bara að kalla norðurljósin Aurora Borialis og slá um sig með því að kalla pólstjörnuna Stella Polaris....... með hæfilegum tilþrifum

Ég er annars staddur í Jakarta þessa stundina því við mér blasti fjögurra daga frí sem ég vildi enganvegin eyða í Banjarmasin. Gymmið og spa-ið hér er algjör snilld og góðar líkur á að maður komi hel-köttaður heim eftir margar góðar stundir á hlaupabrettinu.

Ég verslaði mér PSP í Jeddah. Svosum ekki mikið um það að segja á þessari stundu annað en að mér tekst ekki fyrir mitt litla líf að láta kóperuðu leikina virka. Það er sjálfsagt bara gott á mig og kominn tími til að versla sér eitthvað orginal.

kv

föstudagur, janúar 20, 2006

Skapgerðarbrestir

Nú hef ég ætíð talið mig vera frekar yfirvegaðann einstakling. Að sama skapi hef ég ætíð litið á golf sem einksonar “gentlemans” sport. Ég sé Steina félaga og hugsa... hann er undantekningin sem sannar regluna ;) Svo byrja ég að stunda golf. Hvað gerist? Það kallar fram allt mitt versta skap! Á mínum stutta golfferli hefur kylfa brotnað, við fleira en eitt tækifæri hef ég séð ástæðu til þess að leggja kylfu frá mér á þann hátt að hún endi sem lengst frá þeim stað þar sem ég stend hverju sinni, ég hef notast ljótara orðbragð en eðlilegt hefur talist hjá kirkjuræknum íslendingum hér fyrr á öldum og svo framvegis! Ætti ég að hætta að stunda sportið eða bara ná mér í örlitla leiðsögn?

Golfferð dagsins var farin á Sheraton völlinn hér í Jakarta sem er einn sá besti sem við höfum fundið á svæðinu. Allt gekk þetta svona líka vel þar til í kringum tólftu holu þegar allt fór að ganga á afturfótunum. Það lét ég yfir mig ganga þar til á átjándu þegar ég “ákvað” að hætta, það var ágætt að enginn sá til.

Annar var Emerates kapteinninn sem spilaði með okkur alveg svona líka fjallhress og ánægður að fá þrjá snarbilaða íslendinga til að spila með í staðin fyrir þurrkuntu asíu snobbara, svona nokkurnvegin haft eftir honum... ákil mér einhvern rétt til að muna þetta eins og mér hentar.

Af gríðar flóknum tæknilegum ástæðum er þetta er skrifað 19/01 en ekki hent á netið fyrr en 20/01. Segið svo að maður hafi ekki lært neinar góðar afsakanir úr bransanum!

kv

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Nú veit ég ekki alveg hvað er í gangi hjá strák en af einskærri snilld hefur mér tekist að "tapa" símanum mínum tvisvar á síðastliðnum þrem dögunum en að sjálfsögðu "fundið" hann aftur í bæði skiptin. Af hverju gæsalappir?? Jú vegna þess að ég tapa ALDREI hlutum, ég bara set þá á staði þar sem ég á stundum erfitt með að muna eftir. Ég finn þá ALLTAF aftur.... ALLTAF!! Þess vegna er mér illa við að segja að ég hafi tapað símanum en það róar taugarnar ólýsanlega að setja gæsalappir sitthvoru megin við orðið.
Þannig er mál með vexti að ég ákvað að fara degi fyrr frá balí þar sem restin af drengjunum voru með bóka flug degi á undan mér og ég nennti ekki að hanga þar einn. Því tók ég bílinn með þeim út á völl en í staðin fyrir að geta tékkað mig beint inn þurfti ég að hlaupa á milli afgreiðsluborða í von um að geta breytt miðanum mínum yfir á þegar yfirbókað flug (það tókst reyndar á endanum svo vel að ég fékk sæti á bissnes á meðan drengirnir sátu þar sem þeim best fer.... á monkey class!). Um förtíu mínútum fyrir brottför átta ég mig á því að handsími er enginn í fórum mínum en honum hafði ég haldið á þegar við biðum eftir bílnum á hótelinu. Í einni svipan leitar á mig ljóð eftir þá snillinga Harald og Þórhall sem er einhvernveginn svona:

Símann, sumir telja,
talsvert flókinn hér,
ef viltu, númer velja,
ég vil kenna þér.

Fyrst þú heyrnartólið tekur
og berð það upp að eyra...
Ef að enginn heyrist sónn,
bilaður er telefónn.

Styður fingr' á skífun'
og stafinn fyrsta velur,
Síðan snöggt til hægri snú,
og hana nú.


Þar sem ég stend sönglandi á miðju flugstöðvargólfinu fyrrgreindann ódauðlegann textann átta ég mig á því að ég þarf að gera eitthvað í málinu!!!!!! Í snarhasti hringi ég upp á Hard Rock hótel þar sem síminn finnst. "TOLONG CEBAT" skræki ég í símann í von um að fá minn kæra áður en flugið fer en á þessum tímapunkti veit ég þó ekki hvort ég fái að fljóta með. Þetta tekst allt með herkjum og flýg ég til Jakarta eins og áður segir með hvítann borðdúk undir gæsapateiinu á meðan félagar mínir afturí valda vel hlutverki sínu að vera ballest á móti okkur merklilegra fólkinu frammí.
Annað skiptið var þegar ég fór út að eta hér í Jakarta og tókst af mikilli snilld að skilja símann eftir í sætinu á bílnum þegar ég greip veskið mitt til að borga 60.000 dúggúlúggús í bílinn. Bílsjtórinn átti sér svo einskis ills von nokkru síðar þegar hani fer að gala einhverstaðar aftur í bíl hjá honum. Símann fékk ég aftur og var svo ánægður að ég splæsti 70.000 kalli á bílstjórann.

Hvað um það,

Stefnan er tekin á Banjarmasin 20. jan og flug 22. til Jeddah. Í þetta skiptið lítur út fyrir að maður verði pungsveittur í fluginu því heilar þrjár ferðir til Jeddah er búið að setja á mann og þar á meðal síðasta flugið.

bið að heilsa í bili

föstudagur, janúar 13, 2006

Balíblogg

Ég lít aftur fyrir mig og sé að það er ein á leiðinni. Á minn standard er hún bara nokkuð stór, spurning hvort maður reyni við hana? Hún kemur nær og nær, hugsunin gerist ágengari, er hún of stór fyrir mig? Sýnist hún vera á annan meter! Ef ég bíð of lengi þá fer hún framhjá án þess einusinni að gera mér nokkuð gagn, ég þarf að ákveða mig! Neinei, big is beautifull, ég skelli mér á hana. Það er orðið svolítið áliðið, ég er orðinn dasaður en hvað gerir maður ekki til að skemmta sér aðeins? Ég set mig í stellingar, tilbúinn að vaða beint í hana og láta hana ekki komast upp með neinn yfirgang.
Þær eru góðar með sig hérna og hafa farið illa með menn en ef maður fer rétt að þeim þá getur maður átt góða stund í einrúmi með þeim. Það endist kanski ekki lengi en það er þó frekar vegna þess hversu óreyndur maður er en annað.
Loks kemur að þessu, ég hugsa til orða leiðbeinandans, tæknin skiptir öllu! Þeir eru búnir að stúdera þetta vel hérna á Balí og eru öllum hnútum kunnugir. Það er búið að kenna manni allt um það hvernig á að nálgast þær, komast uppá þær og svo að rúlla sér ofan af þeim eftir að gamanið er búið. Ef maður passar sig ekki getur þetta endað í leiðindum! Ég nennir ekki að standa í því, það getur skemmt fríið að standa í veseni eftir svona lagað. Ég er ekki í þessu til að horfa á sólarlagið, ég vill bara bleytu og nóg af henni! Ég leggst niður, hún kemur að mér, 1-2-3 ég stend.... hugsa um ballansinn, mynnist þess að hafa heyrt að maður eigi að halda sér neðarlega, annars kasta þær manni af. Ég finn það strax að ég hef tak á henni, hún er ekkert að fara án mín héðan af. Ég geri allt sem mér var kennt eins vel og ég get, hugsa um hendurnar, beyta þeim rétt, restin af líkamanum, stellingin skiptir öllu máli. Hlutirnir gerast hratt í bransanum og áður en ég veit er farið að styttast í þessu hjá mér. Ég náði nokkuð góðri ferð þarna og ég hélt að ekkert gæti stöðvað mig en allir góðir hlutir taka enda.
Áður en það er orðið um seinan rúlla ég mér faglega af eins og mér var kennt. Ég ligg í stutta stund áður en ég stend upp, gríp um brettið og læt vaða aftur út í brimið á móts við nýja öldu sem er einhverstaðar á leiðinni frá Ástralíu til móts við mig.


Það er erfitt að kvarta þegar maður hefur það gott..... þess vegna ætla ég alfarið að sleppa því. Frá Balí er allt það flottasta að frétta. Sunblock og mikið magn af aftersun hefur ráðið lögum og lofum hér síðustu dagana en þetta er allt að komast í horfið núna. Við fjórmenningarnir ég, Mási, Gummi og Frikki höfum ekki setið auðum höndum hér enda meira við að vera en maður á möguleika á að komast yfir á svo stuttum tíma sem tíu dagar eru. Rafting, parasailing, waterskiing og að sjálfsögðu surfing er hluti af því sem við höfum verið að eiga við hérna.


Síðast en ekki síst, nýjar myndir á SLEPJUNNI

Kveðja

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Nú er strákurinn kominn til Jakarta þar sem allt er í lukkunar velstandi.
Eitthvað voru bambusarnir að stökkva í veg fyrir mig á golfvellinum í dag þegar ég ætlaði að chippa kúlunni inn á greenið því nían endaði í tveim hlutum eftir viðureign mína við kúluna. Það var ekkert annað að gera en að hætta eftir níundu holu til að halda geðheilsu og heilu golfsetti.

Tók indverskt nudd í dag sem er barasta eintóm snilld. Það jafnast að sjálfsögðu ekkert á við alvöru nudd hjá nuddmeistaranum Helgu Dröfn en þessi komst nærri. Planið að fara aftur á morgun... þetta er svo skelfilega ódýrt að maður getur ekki neitað sér að fá þetta.

Ekki á morgun heldur hinn er stefnan tekin á Balí í tæpa tíu daga. Þar verður gist á Hard Rock hótelinu þar sem við fengum einhvern ótrúlegan díl. Segi betur frá því eftir um hálfan mánuð.

kveðja í rigninguna heima