föstudagur, febrúar 17, 2006

37.000 fetum ofar sjávarmáli á um 900 kílómetra hraða. Fór í þægileg föt um leið og um borð var komið og eignaði mér sætaröð sem mér leist á á efra þilfari. Las bók, varð þreyttur og laggði mig loks í um tvo tíma. Dreymdi að það væri sjálfsagt betra að leggja sig niðri þar sem fimm sæti eru í röð í staðin fyrir þrjú, það er óþægilegt að geta ekki teygt úr sér. Rumskaði og ákvað að það væri kjörið að geyma áframhaldandi svefn þar til síðar. Tók til við að leita að innstungu. Þær er gjarnan að finna nálægt hurðum og viti menn, þar fann ég eina. Tölvan sett í samband og moggi gærdagsins lesinn, ekkert fréttnæmt nema kanski að það mun glitta í sól þegar ég kem heim. Kíki á DV, Sirrí greiið á ekki sjö dagana sæla en hún er svo jákvæð að þetta mun allt fara vel á endanum, hún meira að segja verslaði skyr.is fyrir blaðamanninn. Elda mér mat, 17 mínútur á HIGH og voila, dírindis kjúklingaréttur framreiddur með kartöflugratíni og sveppasósu. Fæ mér sprite, er einhvernveginn búinn að missa lyst á gosi þannig að ég helli því eftir fyrsta sopann. Ríf upp pullu úr sætinu fyrir framan mig og kem mér vel fyrir þvervegis í sætaröð 66 á efra þilfari. Skrifa blogg, átta mig á því að ég þarf að stilla klukkuna í tölvunni, kippi því í liðinn. Tek fram DVD mynd sem ég verslaði í gær, GOOD NIGHT, AND GOOD LUCK. Mynd eftir barnalækninn George Clooney, skilst að hún sé ágæt. Bara tveir og hálfur tími eftir til Dubai og svo um sjö tíma flug áfram til Manston, reikna ekki með að ná kvöldfluginu þaðan heim þannig að það verður bara hádegið á morgun.

Eftir stutt sólbað á rampinum í Dubai sýndi Mási litlu 767 kvikindunum hvernig á að hafa risa úthafs þrýstiloftsflugvél í loftið. Ég dáðist að honum í stutta stund en ákvað svo að fara afturí og horfa á DVD. Celluar með Kim Basinger og öðrum stórleikurum fór í drifið. Gamla skutlan Kim sýnir glæsta takta í hlutverki móður sem lendir í hringiðu svika og pretta. Óvæntur endir þegar allt fór vel, kom algjörlega aftan að mér! Önnur mynd var svo tekin með trompi, man ekki hvað hún heitir lengur. Var þá kominn tími á að kvíla lúin augun. Í þetta skiptið fylgdi ég hjartanu og fór niður þar sem fimm sæta röð var í boði. Út frá ýtarlegri greiningu á ástandi mínu taldi ég að um eins og hálfs til tveggja tíma svefn yrði útkoman. Það næsta sem ég veit er að tröllvaxinn flugvirki hristir mig til meðvitundar úr djúpum drauma svefni þar sem aðeins fimm mínútur eru til lendingar. Manston var það heillin.

Eftir ítarlega toll og vegabréfaskoðun.... EEEEEEEHEM, var farið í rútu. Umferðaslys á M25 (longest car park in the world) olli því að eins og hálfs tíma ferðalag lengdist í um fjóra til fjóran og hálfan. Tíminn var notaður til hins ítrasta þar sem haldið var firmakeppni í Kana. Lengi vel hafði ég höfuð og herðar yfir andstæðniga mína en eitthvað var tímamismunurinn að leika sér að mér því eftir að hafa kallað Kana bað ég svo um rangt spil í upphafi og tapaði þannig fyrsta slag! -50 stig takk fyrir og við Siggi lentum á botninum.

Til að gera allt of langa sögu stutta þá komumst við inn á hótel, sváfum af okkur yfir nóttina og tókum svo fyrsta flug til Íslands.

kv

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Velkominn heim úr sollinum.
c u on tuesday
hjr