miðvikudagur, janúar 23, 2008

Á maður ekki stundum rétt á að vera svolítið fúll? Ég vil meina það, læt eftirfarandi sögu fylgja sem “case study”

Ég er á leiðinni frá Kuala Lumpur til Lisboa. Ég er með miða í höndunum upp á flug frá Kuala til Parísar. Frá París hef ég bókað flugmiða á eigin vegum til Lisboa. Á síðustu stundu, og þá meina ég allra síðustu stundu, breytist flugið frá Kuala í að vera Kuala til Amsterdam til París. Allt á þetta að sleppa í tíma til að ég nái fluginu frá CDG til LIS. Nema hvað að snillingarnir hjá KLM eru með fimm tíma seinkun á fluginu hjá sér frá KUL. Þeir láta það nú ekki á sig fá, dúndra í loftið og ákveða svo að tilkynna það einhverstaðar yfir Moskvu að áhöfnin sé að renna út á “duty” (vinnutímamörk sett af yfirvaldinu) og þar af leiðandi verði stoppað við í Helsinki til að skipta um áhöfn.

Í Helsinki var mínus tvær gráður og snjór. Tveggja tíma stopp teygðist upp í þrjá og hálfan og var mér ljóst að ég væri að missa af fluginu mínu til LIS. Svo heldur dúndrið áfram, þrumað yfir til Amsterdam þar sem ég fæ miða til CDG í hendurnar. Ég geri Mr. KLM það ljóst að nú hafi ég misst af fluginu mínu CDG-LIS og það hafi kostað mig 320 evrur, hvort þau geti ekki komið mér á flug AMS-LIS sem er þarna seinna um kvöldið. Jújú, ekkert mál, 700 kall og málið er dautt. Að sjálfsögðu gekk ég ekki að þessu killer tilboði, heldur fer til CDG og ákveð að kanna kosti mína þar.

Þegar til Parísar var komið og ég fer að kanna hvað sé hægt að gera fyrir mig kemur í ljós að það er ekki nokkur skapaður hlutur. Ég fæ þá hugmynd að ég gæti verslað miða með EasyJet aðra leið og nýtt þá seinni helming TAP miðans til að komast til baka 1. feb. Aldeilis ekki! Noti maður ekki fyrri hluta ferðarinnar þá dettur miðinn niður dauður, andvana og ónothæfur fyrir seinnipartinn.... en ekki hvað??!?!?!? Ef ég fer á veitingahús, panta mér pizzu og salat, borga en ákveð svo að mér langi ekki í pizzuna, fæ ég þá ekki salatið? Kanski nærtækara dæmi, ef ég kaupi mér miða með lest París-Lisboa-París en nota svo ekki París-Lisboa hlutann, fellur þá seinni helmingurinn niður? Aldeilis ekki!!

Hvernig komast flugfélögin upp með þetta, ég er að spá í að hringja í Ástþór Magnússon og fá lista yfir dómstóla sem ég geti kært þetta til.

Minn eini kostur er að kaupa nýjan miða á aðrar 320 evrur og bara brosa hringinn, því þeir nota hágæða vaselín, blandað Astroglide, þessir kumpánar í flugbransanum og ef eitthvað er þá nýtur maður þess að beigja sig fyrir þeim.

Það sem mér blöskrar einna mest er að KLM ber enga ábyrgð á tjóni sem verður vegna seinkunar af þeirra hálfu, orsökuð af þeirra eigin veseni, umfram þeirra eigin tengiflug. Ef ég hefði t.d. átt tengiflug áfram til Suðurpólsins með South Pole Airways og sá miði hefði kostað 1.500.000 kr þá væri það bara “We at KLM are so sorry for your inconvenience, please take this voucher and enjoy some refreshments up to the value of 8 euros in any of the airports facilities, thank you for choosing KLM, hope to see you again soon, hope you enjoyed the flight, bye and have a pleasant stay/trip/life” (staðlaður texti, lesinn beint upp úr frasabók KLM í einu andataki).

Svona til að toppa stemninguna þá var töskuna mína hvergi að finna við komuna til CDG. Eins og það er stundum að maður verður svangur, svo hættir maður að vera svangur, þá var ég orðinn svo pirraður að ég var hættur að vera pirraður. Gerði skýrslu, fékk forláta “Toiletries” tösku svo ég gæti nú tannburstað og rakað mig, smellti mér svo á fínasta resturantinn á CDG og pantaði mér þriggja rétta matseðil með glasi af rauðvíni.

Ekki vildi minn ástkæri vinnuveitandi gera neitt fyrir mig, þrátt fyrir að hafa breytt traveli á síðustu stundu af flugi sem var á tíma á flug sem var í 5 tíma seinkun......

Mér einfaldlega féllust hendur, fór að trúa á guðlega íhlutun, og ákvað að mér var ætlað af æðra yfirvaldi að fara heim og mála svefnherbergið mitt. Því er ég kominn heim, viku fyrr en ætlað var. Skíði og málning, það er málið

Kv.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Stjörnuspá BOA seinnihluta jan: Æðri máttarvöld toga í strengi sína til að stjórna ferðum þínum á rétta staði. Þú munt sænga hjá oteljandi meyjum í komandi fríi þrátt fyrir kulda og snæ á áfangastað.
Hin eina rétta mun ná athygli þinni þegar þú síst átt von á.

Nafnlaus sagði...

Nú er það vitað mál að kuldi og nett brennivínsmarínering viðheldur æskuljómanum auk þess sem stormviðri veitir náttúrulega andlitslyftingu svo prísaðu þig bara sælan að vera kominn á stormskerið, gæskurinn.

Nafnlaus sagði...

æhh anginn...

Velkominn heim annars og ég efast ekki um að fyrsta umferð í svefnherberginu er betri en nokkur getur ímyndað sér....

HD