mánudagur, febrúar 28, 2005

Þá er ég búinn að hendast fram og til baka til Sameinaða Konungsveldisins. Þar gerði ég garðinn frægan í flugherminum hjá Almennum Raftækjum . Einhvernvegin tókst mér að komast í gegnum þetta allt saman og er nú löglegur til að skandalera í sjálfri flugvélinni næstu sex mánuðina.
Annars er Oran við sama heigarðshornið, dauði og dj####r. Miklar kjaftasögur skutu upp kollinum á föstudag um það að nú hefði Air Algerie undið kvæði sínu í kross og að þessum beis yrði því lokað strax eftir mánaðarmót. Nú veit enginn neitt nema bara að það er flug á morgun, svo sjáum við bara til.

kv.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Það er aksjón á þessum bæ

Hér er allt á öðru hundraðinu. Í dag fékk ég loksins langþráðar upplýsingar um það hvenar ég fer í flugherminn í UK. Það verður 26. og 27. febrúar. Ég fer þá til París og London á morgun, verð þar í þrjá daga og kem svo aftur í stuðið hér mánudaginn 28. febrúar.
Fór í aftur í 80 króna klippingu. Það gekk þar til maðurinn skar næstum af mér eyrað, komst að því eftirá að hann hét Kamel van Gogh

kv.

laugardagur, febrúar 19, 2005

Dagur í lífi alsírsks rútubílstjóra sem er í fríi þann daginn... aldrei þessu vant.

Mikil og stór plön gerð fyrir daginn:

8:30-8:45 Fara með einkennisfatnaðsbuxurnar og bindið í hreinsun á hótelinu
8:45-12:00 leggja sig
12:00-24:00 Láta daginn líða

Dagurinn í raun og veru:

8:30 vekjaraklukkan hringir.... ahhhhhhh ég hef til 9:00 til að fara með fötin svo ég fái þau á morgun, hvar er snooz takkinn?
8:40 vekjaraklukkan hringir... úffff... ahhh hvað er í gangi... ég hef enþá tuttugu mínútur til að redda þessu, snoozzzzzzzz
8:50 vekjaraklukkan hringir... ahhh það er nú alveg nóg að koma með þetta á slaginu, svo á ég líka einar hreinar buxur enþá þannig að þetta er ekkert stress snooz.
9:00 vekjaraklukkan hringir... hvað er í gangi hérna???? Snoooooz
9:10 vekjaraklukkan hirngir... hvaða rugl er þetta, ég er búinn að missa af hreinsuninni, get alveg sofið aðeins lengur... snoooz
9:20 vekjaraklukkan hringir.... allt of snemmt til að vakna hef ekkert að gera fram að hádegi snooz
9:30 vekjaraklukkan hringir... hvað er í gangi hérna, enginn svefnfriður? Snoooooz
9:40 vekjaraklukkan hringir.... ahhh hvað er klukkan eiginlega? Heirðu mig nú, farin að ganga tíu, rúmir tveir tímar í hádegismat snooooz
9:50 vekjaraklukkan hringir..... þetta er nú meira ruglið, snooooz
10:00 vekjaraklukkan hringir... JÆJA nóg komið.... vekjaraklukkan sett á off og svo ZZZZZZzzzzzzzZZzzzZZZzzzzzzzzzzzzzz
10:45 ranka ég við mér að sjálfsdáðum enda búinn að fá kjörsefn fyrir mann á mínum aldri.
10:50-11:30 Sendi e-mail og spjalla við HD á MSN þar til háhraða módem sambandið slitnar og ég kem út sem bölvaður dóni sem kveð ekki áður en ég læt mig hverfa
11:30-11:50 Sturta og allt sem því fylgir
11:50-12:00 Leita að einhverjum til að rölta með mér niðrí bæ til að snæða morgun/hádegisverð. Sú leit skilar engum árangri því menn eru annaðhvort flúnir til París á frídeginum (skiljanlega) eða nýbúnir að panta room service.
12:00-12:20 Gaufa í herberginu mínu
12:20-13:00 Hádegismatur þar sem nokkrir mekkar láta sjá sig, lít á klukkuna, bara sjö tímar í kvöldmat
13:00-13:50 Fæ lánaðan gítartuner og stilli gítarinn minn sem hefur verið með kvef síðustu vikurnar og þar af leiðandi verið lítið notaður. Æfi mig svo aðeins.... “Róóóóóóómeóóóóóóó, Júlíaaaaaaaaaaaaaaaaaa.....” og “Hlustá Zeppelin, og ég ferðast aftur í tímann....” Bubbi klikkar ekki. Er svo lánsamur að hafa enga nágranna í næstu herberjum þannig að maður getur óhræddur látið ljós sitt skína
13:50-14:00 Vá, klukkan bara að verða tvö, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt
14:00-14:45 Kíki meira á netið... skoða hluti á netininu sem mig bráðvantar
14:45-16:30 Les bók, “Deception Point” sem er nokkuð spennandi, þakka fyrir það í hljóði að lesa hægt því bækurnar sem ég les verða flestar nokkuð drjúgar þannig.
16:30-18:00 Annríki dagsins ber mig ofurliði og ég steinsofna þar sem ég ligg uppí rúmi og er að lesa bók
18:00-20:00 Fæ nokkra geisladiska lánaða til að rippa...
20:00-21:00 Kvöldmatur, rifja upp kynni mín við filet minjon with peppersauce sem ég hef ekki haft lyst á að smakka síðan við skiptum um hótel hérna og ég borðaði annan hvern dag í tvo mánuði.
21:00-22:30 Barinn heimsóttur... aldrei þessu vant. Stella í góðum gír eins og venjulega. James Bond (hann heitir það í alvörunni og er hálf íslenskur í þokkabót) kíkir við með gítarinn sinn. Hýrt par í sem er að eyða vikunni á hótelinu í tilefni valentínusardags fær gripinn að láni, annar spilar nokkur vel valin lög á meðan hinn reynir að syngja við með mis slæmum árangri.
22:30-22:40 Tvær DVD myndir fengnar að láni
22:40-23:20 Dýrmætum tíma eytt í að skrifa þetta blogg sem er út í hött
23:20... Horft á DVD myndir.... segi frá þeim í löngu máli á morgun.

kv.

föstudagur, febrúar 18, 2005

Tilkynning

Það gleður mig að tilkynna að mér hefur verið tilkynnt að Steindóri félaga var tilkynnt að ég væri víst kominn á FFF. Það er að sjálfsögðu mikið ánægjuefni því nú tekur alvara lífsins við.... töluvert meira frí en áður hefur þekkst á mun betri laun en launareikningur minn hefur nokkurntíman kynns.
Opinberlega skilst mér að maður ætti þá að detta í frí frá og með 21. feb en það er víst svo undirmannað hér að maður verður að sitja eitthvað á sér, sjáum til hversu lengi það verður.
Ég er þá farinn á barinn að fagna þessu með vinkonu minni Stellu.

Það sem er mest móðins hjá upprennandi flugmönnum í dag er að versla sér steipu og gler... ég tilkynni það hér með að ég ætla ekki að gera það næstu mánuðina heldur nýta mér góðvild félaga minna sem hafa reist skjaldborg um miðbæ Reykjavíkur þannig að það verður alltaf einhver til að heimsækja annaðhvort fyrir eða eftir að maður hefur fengið sér í litlu tánna.

kv.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Móna

Þetta skrifaði ég í fyrradag en komst ekki í að setja það online
Nú er ég búinn að vera í París í fjóra eða fimm daga, týndi tölunni einhverstaðar á miðri leið. Það er skemst frá því að segja að á þessum tíma ætlaði ég mér að fara á skíði með foreldrum mínum einhverstaðar í Austurrísku ölpunum en eins og dagpeningarnir mínir gefa klárlega til kynna þá er ég með öllu ómissandi og komst því ekki frá. Í staðin tók ég uppá því að láta vélina bila í París (þetta var nú einusinni minn leggur) þannig að ég fengi frí þar í staðin... á launum að sjálfsögðu. Ég lét verða af því að skella mér á Lúvr til að berja hana Mónu loks augum. Þvílíkan og annan eins antiklímax hef ég sjaldan upplifað. Ég var búinn undir allan þann storm tilfinninga sem ég bjóst við að upplifa við þessa to-be stórfenglegu sjón. Gleði, undrun, kláði, sæla, algleymi..... þetta er rétt upphafið að því sem ég bjóst við að upplifa við það að sjá verkið sem reyndist svo bara vera lítið merkilegra en restin af því sem finnst þarna. Í staðin fyrir að vera bergnuminn af fegurð Mónu, sem er nota bene sjálfsmynd karlmanns, fór ég að velta fyrir mér sögusviði DaVinci lykilsins sem gerist einmitt að hluta til þarna. Merkileg fundust mér hinsvegar verkin innan um allar trúarlegu jesúmyndirnar sem voru ýmist með afhöggnum hausum eða fólki standandi í hóp með sveðju hoggna niðrí miðja hauskúpu. Ef einhver getur útskýrt þetta fyrir mér þá er það vel þegið.

Dagurinn í dag:
Vann það stórvirki að fljúga frá Oran til Alsírsborgar á um fjörtíu mínútum sem þykir nokkuð eðlilegt. Í Alsírsborg var hellingur af rauða dótinu á sjónvarpsskjánum hjá mér, s.s. leiðindar veður. Mikill hristingur sem endaði með því að elding varð á vegi okkar og skilst mér að almenn skelfing og óp hafi ráðið ríkjum afturí. Það er gott að farþegarnir sáu ekki til mín því mér brá svo hrikalega að ég meig á mig... þannig séð. Það var nú fljótt að þorna þannig að það er ekkert meira um það að segja. Eftir að hafa eytt svo níu tímum í Algeirsborg í að gera ekki neitt var stefnan svo tekin aftur á Oran þar sem ég er staddur á hótelinu núna í Ain El Turk...... eru ekki allir búnir að ná því að hótelið er í Ain El Turk? Hint: Hvernig les maður Ain El Turk á ensku?

Kv.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Stóratburður í langri og glæstri sögu Air Algerie átti sér stað í dag þegar framúrstefnulega frækin áhöfn flugvélarinnar TF-ATY flaug frá Oran til Orly og til baka á áætlun báðar leiðir. Þetta gekk það langt að lending í Oran, framkvæmd af ykkar einlæga, fór fram klukkan 14:00 staðaltíma en áætlaður lendingartími var einmitt 14:00 staðaltíma. Þrátt fyrir þetta afrek var enginn rauður dregill, engar rósir, ekkert kampavín, engar fáklæddar stúlkur dansandi steppdans.... cabin crewið beið meira að segja ekki eftir okkur með rútuna þannig að við þurftum að ganga löngu leiðina úr vélina upp að húsi.

kv.

laugardagur, febrúar 05, 2005

Jæja Steini, þú getur tekið gleði þína því það er búið að færa mig yfir á bumbuna . Þar sem ég er yfir meðallagi bjartur ungur drengur þurfti ég ekkert námskeið, ekkert rugl, bara beint að fljúga, þetta eru allt Partenaviur í mismunandi stærðum hvort eð er.

Kíktum niðrí Oran í dag. Einn lét ræna af sér síma, $200 og visa gullkorti, þessi mynd er tekin skömmu áður.

Nokkrar nýjar myndir komnar á myndasíðuna.. hér og þar

kv

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Hvað haldið þið, ég er ekki farinn til UK og ég er að fara að fljúga á morgun.
Annars er gríðarlegt action á manni. Um daginn fékk ég 4.1 í vibration á LPT á vinstri mótor... hugsið ykkur. Svellkaldur eins og ég er tók ég þessu nú bara með stóískri ró. Ekkert meira um það að segja.

Fer víst ekki til UK fyrr en í lok mánaðarins þannig að við getum öll verið nokkuð róleg yfir því. Fékk vinnuskrá fyrir mánuðinn í gær. Var ekki búinn að hafa hana undir höndum í fimm mínútur þegar fyrsta breytingin kom. Hún var þó smávægileg og sammvinnuþýður eins og ég er tók ég því nú bara með jafnaðargeði. Annars ætti þessi mánuður að vera þokkalegur, miðað við það sem gengið hefur á, heilir 57 tímar áætlaðir í háloftunum. 12 ferðir til Orly og tvær til Algeirs, fjölbreytileikinn er að ganga frá mér hérna. I will survive.

annars kveðja á frónina og til annara afkima