þriðjudagur, apríl 12, 2005

Hvað haldið þið að sé að gersast. Nú er ég búinn að vera úti í viku, búinn með eitt flug og lítur úr fyrir að ég fljúgi ekkert fyrr en 19. apríl. Hvað skal segja, ætli ég skoði ekki bara allt sem hægt er að skoða í þessari borg og nágrenni næstu vikuna.

Gerði víðreist í dag. Flengdist um alla borg með það eitt að markmiði að skoða allt það helsta sem hægt að er berja augum í borg rómantíkinnar. Byrjaði daginn á hressandi morgungöngu uppúr hádegi í Pere Lachaise kirkjugarðinum. Þar eru grafin mörg stórmennin ber þar helst að nefna Jim Morrison, Barónessan af Stroganoff og Edith Piaf.

Til að ná mér niður eftir kirkjugarðinn kíkti ég á Bastillutogið þar sem hið illræmda Bastillu fangelsi stóð forðum daga. Ég leyfi mér að vitna í Michelin túristhandbókina í þágu örlítillar sögukennslu. “Að morgni 14. júlí 1789 marseraði múgur Parísarbúa niðrí Invalides að ná sér í vopn og héldu svo til Bastillunar gráir fyrir járnum. Seinnipartinn sama dag hafði Marquis de Launay fangelsistjóri Bastillunnar gefist upp, múgurinn náð stjórn á virkinu og murkað lífið úr Marquis og kumpánum hans. Á táknrænan hátt var svo öllum sjö vistmönnum Batillunar sleppt lausum en þar á meðal var snarbilaður kleppari “madman” sem hefði sjálfsagt betur setið áfram inni. Síðar sama ár var virkið rifið af átta hundruð verkamönnum.”

Ráfaði svo að mestu leiti stefnulaust um borgina með stuttum stoppum við Notre Dame og Montparnasse sem er rúmlega tvöhundruð metra há bygging og þar með hæsta bygging Parísar ef Eiffel turninn er ekki tekinn með í dæmið.

Kv.

Engin ummæli: